Snorri Steinn Guðjónsson (INA FASSBENDER / AFP)
Snorri Steinn Guðjónsson var mættur í viðtal við Eddu Sif Pálsdóttur á RÚV beint eftir jafntefli liðsins gegn Sviss í Malmö í dag þar sem hann var spurður spjörunum úr. Edda Sif spurði hann fyrst að því hvernig íslenska liðið geti átt svona frábæran leik gegn Svíþjóð en boðið síðan upp á frammistöðu líkt og í dag? ,,Ég hef ekki svar við því.” En hvað veldur? ,,Auðvitað hef ég það ekki svona beint eftir leik en það segir sig sjálft að við vorum skrefinu á eftir þeim varnarlega allan leikinn í dag. Það kemur smá kafli um miðbik seinni hálfleiks sem glittir í þetta en þá erum við á sama tíma klaufar og óðagot á okkur og tapaðir boltar og skot í tómt markið og hlutir sem falla ekki með okkur.” En er hægt að skrifa þetta á stress, alla þessa töpuðu bolta? ,,Það getur vel verið. Menn vilja þetta mjög mikið og það er mikið í húfi. Hraðarupphlaupin gengu samt vel og við vorum að skora mikið af mörkum og það var ekkert óeðlilegt að við vildum gera það en við erum með of marga tapaða bolta í þessum leik.” Snorri Steinn efast um að þetta stig dugi liðinu til að komast í undanúrslit mótsins. ,,Það er líklegt að þetta stig dugi ekki til. Við þurftum að vinna báða leikina en við verðum að bíða og sjá en ég á von á því að þetta dugi ekki.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.