Lukas Sandell - Svíþjóð ((JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Michael Apelgren þjálfari sænska landsliðsins hefur kallað inn nýjan leikmann fyrir síðustu leiki Svía á Evrópumótinu en hægri skyttan, Edwin Aspenbäck leikmaður Rhein-Neckar Löwen hefur verið kallaður inn í sænska hópinn. Svíþjóð tapaði gegn Íslandi á sunnudaginn en liðið mætir Ungverjalandi í kvöld klukkan 19:30 og á morgun mætir liðið Sviss á sama tíma. Daniel Vandor fjölmiðlafulltrúi sænska landsliðsins segir að um varúðarráðstöfun sé um að ræða og engin meiðsli séu að plaga leikmenn sænska landsliðsins. Edwin Aspenbäck er því einungis kallaður inn í hópinn til að auka breiddina í hægri skyttu stöðunni en Albin Lagergren og Lukas Sandell hafa leikið í hægri skyttustöðunni hjá Svíum á Evrópumótinu hingað til. „Þetta er varúðarráðstöfun. Við sjáum það ekki sem ókost að hafa fleiri leikmenn í stöðunni þegar við förum inn í enn þéttari leikjadagskrá með tveimur leikjum á tveimur dögum dögum og vonandi fjórum leikjum á sex dögum,“ sagði Vandor við Aftonbladet.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.