
Tobbi Aðalsteins á Bolafjalli (einkasafn)
Síðast var það Viggó Sigurðsson sem spáði fyrir leik Íslands og Svíþjóðar. Núna verður það annar fyrrum landsliðsþjálfari hann Þorbergur Aðalsteinsson sem spáir í leik dagsins hjá strákunum okkar en Ísland mætir Sviss í Malmö Arena klukkan 14:30 í dag. Líkt og Viggó þá er hann einnig fyrrum leikmaður landsliðsins. Um er að ræða næst síðasta leik Íslands í milliriðlinum en sigur í tveimur síðustu leikjum Íslands sem eftir er í milliriðlinum, tryggja Íslandi sæti í undanúrslitum Evrópumótsins. Þorbergur var ekki nema 34 ára gamall þegar hann tók við landsliðinu 1990. Hann hafði þjálfað Þór í Vestmannaeyjum 1983 til 1984 og komið liðinu upp í efstu deild. Þaðan fór hann til Svíþjóðar í nám og spilaði með Saab. Hann þjálfaði einnig Saab 1985-1987 og nam um leið við sænska þjálfaraháskólann. Þorbergur náði frábærum árangri með liðið sumarið 1992 á Ólympíuleikunum í Barcelona. Þá komst liðið í undanúrslit og endaði að lokum í fjórða sæti. Sjáum hvað Þorbergur spáir til um leikinn en Þorbergur er staddur í Malmö og hefur fylgst með íslenska landsliðinu ytra.
,,Þetta fer 32-29 fyrir okkur. Gísli verður markahæstur með 9. Það verður á köflum erfitt að eiga við Svissarana og þeir eru með góðan markmann. Ýmir fær rautt. Valdi Gríms hleypur óvænt inn á völlinn."

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.