
Felix Claar (Sameer AL-DOUMY / AFP)
Felix Claar leikmaður sænska landsliðsins og þýska liðsins Magdeburg var hundsvekktur og ósáttur eftir að Svíar gerðu jafntefli á heimavelli gegn Ungverjum í gærkvöldi í Malmö Arena. Lokatölur 32-32 en Ungverjar voru yfir meira og minna allan leikinn. Úrslitin þýða það að nú eru Króatar og Ísland í bílstjórasætinu fyrir lokaumferðina og Svíar þurfa að treysta á hagstæð úrslit í dag þegar lokaumferðin verður leikin. Svíar mæta Sviss í kvöld í lokaleik milliriðilsins. Þeir munu því vita úrslitin úr öðrum leikjum þegar þeirra leikur hefst. Svíar eru ekki lengur með örlögin í sínum höndum eftir jafnteflið og dugar Íslandi og Króatíu að vinna sína leiki á morgun til að komast áfram. Claar var langbesti leikmaður Svíþjóðar í leiknum en hann skoraði tíu mörk. ,,Ég er mjög pirraður. Þetta var klárlega leikurinn sem við áttum að vinna. Við fáum aldrei meðbyr og þurfum að berjast fyrir öllum mörkunum okkar, þetta er ekki orkan sem við viljum sýna,“ sagði Claar við Aftonbladet eftir leik en hann var markahæstur í liði Svía með tíu mörk. „Ég átti góðan leik en það skiptir engu djöfulsins máli núna. Í raun skiptir engu máli hver skorar mörkin, við þurftum bara tvö stig,“ sagði Claar en Svíar töpuðu gegn Íslandi með sex mörkum í leiknum á undan. Margir spáðu Svíum áfram í undanúrslit Evrópumótsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.