
Ísland (Johan Nilsson/TT /AFP)
Íslenska landsliðið er komið í undanúrslit eftir frábæran sigur á Slóvenum, lokatölur 39-31 en það var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda eftir frábærar upphafsmínútur í síðari hálfleiknum Það var allt annað að sjá til íslenska liðsins í byrjun leiks í dag en í gær gegn Sviss en liðið var augljóslega betur stillt og ákveðið í að klára verkefni dagsins sem myndi koma liðinu í undanúrslit. Fyrri hálfleikurinn var frekar jafn en Vujovic í marki Slóvena var að verja vel ásamt því að við gerðum okkur seka um að fá nokkrar klaufalegar brottvísanir þannig liðinu tókst ekki að slíta sig almennilega frá Slóvenum, staðan í hálfleik 16-18. Það mátti sjá á leik Íslands í byrjun seinni hálfleiks að Snorri Steinn hafi farið vel yfir málin með lærisveinum sínum því Íslenska liðið var vel með á nótunum og mátti sjá mikla einbeitingu og gír í liðinu. Ísland komst í fimm marka forystu þegar um tuttugu mínútur voru eftir og þá leist Zorman þjálfara Slóvena ekkert á blikurnar og tók leikhlé. Það gerði hins vegar lítið fyrir Slóvena því íslenska liðið var ákveðið í því að klára þennan leik og þeir gáfu bara meira í og komust meðal annars í átta marka forystu þegar minna en tíu mínútur voru eftir. Það var einfaldlega of mikill munur og Slóvenar komust ekki nálægt því að jafna leikinn og frábær íslenskur sigur í höfn! Lokatölur 39-31 og Ísland er komið í undanúrslit sem fara fram í Herning á föstudag! Stemning mögnuð í Malmö Arena og gríðarlega vel gert hjá Íslandi!

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.