Jonas Wille - Noregur (FRANCOIS LO PRESTI / AFP)
Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera landsliðsþjálfari í handknattleik og er Jonas Wille þjálfari norska landsliðsins engin undantekning þar. Hann hefur verið gagnrýndur harðlega eftir síðustu verkefni Noregs og Evrópumótið í ár hefur ekki farið eins og Norðmenn vonuðust eftir. Noregur gerði 35-35 jafntefli við Portúgal í næstsíðasta leik sínum í milliriðli I á EM í fyrradag og eru Norðmenn með þrjú stig í 4. sæti milliriðilsins og geta í besta falli náð 3. sæti hans og þar með leikið um 5. sætið á EM. Til þess þurfa Norðmenn að treysta á að Þjóðverjar vinni Frakkland í sínum leik í dag og Noregur að vinna Danmörku í lokaleik dagsins. Håvard Tvedten, sem skoraði 809 mörk í 208 landsleikjum á árunum 2000-14 fyrir norska landsliðið kallar eftir breytingum og segir að tími sé kominn að fá inn nýjan mann við stjórnvölinn. Jonas Wille tók við norska landsliðinu af Christian Berge árið 2022. ,,Þetta eru auðvitað vonbrigði. Að þeir séu enn og aftur ekki að berjast um verðlaun eins og þeir gerðu fyrir nokkrum árum. Ég held því miður að þetta sé ekki nógu gott til að halda áfram með Wille. Ég held að það sé kominn tími á breytingar og ég held líka að þeir muni ráðast í þær,“ sagði Tvedten á NRK í Noregi í fyrradag. Wille er á sínu fimmta stórmóti með norska liðið. Það endaði í 6. sæti á HM 2023 og 10. sæti á HM í fyrra. Á EM 2024 lenti Noregur í 9. sæti og í 6. sæti á Ólympíuleikunum sama ár. Undir stjórn Christian Berge vann Noregur til silfurverðlauna á HM 2017 og 2019 og bronsverðlauna á EM 2020. „Ég held að það þurfi nýjar hugmyndir. Wille hefur átt fjögur góð ár með mörgum góðum augnablikum en við höfum aldrei barist um verðlaun,“ sagði Tvedten.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.