Nils Lichtlein (Sina Schuldt / dpa Picture-Alliance via AFP)
Danski handboltaspekingurinn og góðvinur Handkastsins, Rasmus Boysen setti inn árlega færslu á samfélagsmiðla sína í gær þar sem hann veltir fyrir sér því fyrirkomulagi á stórmótum í handbolta að lokaleikir í riðlakeppni og í milliriðlum séu ekki leiknir á sama tíma. Er það gert vegna þess að allir riðlar eru leiknir í sömu höllinni og því ekki annað hægt en að spila á mismunandi tímum. Rasmus segir að þrátt fyrir að um fjárhagslega ástæðu sé um að ræða og utanumhald á mótinu þá verði íþróttin að breyta þessu, ætli hún að láta taka sig alvarlega. ,,Ég veit að ég hef sagt þetta hundrað sinnum, en enn og aftur erum við að rekast á sama vandamálið. Ef handbolti á að vera tekinn alvarlega sem atvinnuíþrótt, þá er það mér óskiljanlegt að lokaumferð riðlakeppni eða milliriðli sé leikin á mismunandi leiktímum. Ég skil að viðskiptahagsmunir séu í spilinu og að það að hafa nokkra leikvanga í boði tengist meiri útgjöldum en núverandi mótafyrirkomulag er íþróttafarsi. Að þessu sinni hagnast engin lið beint af fyrri úrslitum en það er heppni frekar en góð skipulagning," sagði Rasmus Boysen á samfélagsmiðlasíðum sínum bæði á Facebook og X og á þá við að ekkert lið í dag sem leikur seinni leiki dagsins græða á því að spila seinni leiki dagsins. Einu áhrifin eru hinsvegar þau að tapi Ísland gegn Slóveníu í fyrsta leik milliriðils 2 í dag klukkan 14:30 vita Svíar fyrir lokaleikinn sinn að þeir eigi enn möguleiki á að komast í undanúrslit með því að ná í stig gegn Sviss. Ekkert lið verður þó komið áfram vegna hagstæðra úrslita en Danmörk er eina þjóðin sem hefur nú þegar tryggt sér sæti í undanúrslitunum. Þýskaland og Frakkland leika hreinan úrslitaleik um laust sæti í undanúrslitum en Þjóðverjum dugar jafntefli í leiknum. Sigri Ísland Slóveníu og vinni Króatía sinn leik gegn Ungverjum tryggja bæði liðin sér áfram í undanúrslit á kostnað Svía sem leika lokaleik dagsins gegn Sviss klukkan 19:30.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.