Óðinn Þór Ríkharðsson (JOHAN NILSSON / TT NYHETSBYRÅN / TT News Agency via AFP)
Það voru senur í Rapyd-stúdíóinu í gærkvöldi þegar Handkastið hóf upptökur af uppgjörsþætti sínum eftir jafntefli Íslands gegn Sviss í gær. Upptökurnar hófust í hálfleik í leik Svíþjóðar og Ungverjalands og var öll umræðan um leik Íslands og Sviss lituð af því að Ísland væri ekki lengur með það í hendi sér að tryggja sér í undanúrslitin. Í miðjum þætti varð það síðan ljóst að Svíþjóð og Ungverjaland gerðu jafntefli og skyndilega var Ísland aftur komið í bílstjórasætið. Ísland mætir Slóveníu í dag klukkan 14:30 og þarf sigur til að tryggja sér sæti í undanúrslit Evrópumótsins. ,,Ef við fáum Ungverja og Svía-Snorra á hliðarlínuna, ákefðina sem var í þeim leikjum þá lokum við Slóvena leiknum og siglum heim í Herning sem væri frábært skref fyrir þetta lið og þeir eiga það skilið þrátt fyrir að hafa skitið svona á sig gegn Sviss. Núna trúi ég ekki öðru en að menn gyrði sig í brók og finni hjartað fyrir verkefninu. Menn mæti með hjartað utan á búningnum og tilbúnir að blæða fyrir land og þjóð. Þetta er risaskref fyrir landsliðið að komast aftur á topp 4 á stórmóti og ég trúi ekki öðru en að við sjáum einhverja svakalega breytingu í ákefð, framlagi og viðhorfi í liðinu miðað við það sem við sáum gegn Sviss," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson sem var gestur í uppgjörsþætti Handkastsins í gærkvöldi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.