Grétar Ari Guðjónsson ((AEK)
Samkvæmt heimildum Handkastsins er markvörðurinn, Grétar Ari Guðjónsson að ganga í raðir Hauka í Olís-deild karla og mun leika með uppeldisfélagi sínum eftir áramót. Kemur Grétar Ari til Hauka frá AEK í Grikklandi en hann gekk í raðir AEK síðasta sumar eftir dvöl í Frakklandi hjá Ivry. Í Frakklandi lék Grétar Ari einnig með Nice, Sélestat og Ivry bæði í frönsku úrvalsdeildinni og í 1.deildinni. Ekki liggur fyrir afhverju Grétar Ari er að koma heim á þessari stundu en ljóst er að ef satt reynist er um gríðarlega liðstyrk að ræða fyrir Hauka sem eru í 3.sæti Olís-deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir með 22 stig, tveimur stigum á eftir Val sem er á toppi deildarinnar. Haukar og Valur mætast einmitt í fyrstu umferðinni eftir Evrópumótið í næstu viku. Gera má fastlega ráð fyrir því að Grétar Ari myndi markvarðarpar með Aroni Rafni Eðvarðssyni og spurning hvort það verði hlutskipti Magnúsar Gunnars Karlssonar að vera lánaður líkt og á síðustu leiktíð, er hann lék með Gróttu á láni frá Haukum. Fyrir áramót birti undirritaður lista yfir fimm leikmenn sem gætu komið heim næsta sumar og leikið í Olís-deild karla á næstu leiktíð. Ef heimildir Handkastsins eru réttar og Grétar Ari gengur í raðir Hauka, er hann annar leikmaðurinn sem kemur í Olís-deildina tæplega mánuði eftir að undirritaður birti listann. Á listanum var einnig Dagur Gautason sem á dögunum gekk í raðir KA.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.