
Rasmus Lauge (Sina Schuldt / dpa Picture-Alliance via AFP)
Danmörk stendur enn á ný frammi fyrir mikilvægri úrslitahelgi á stórmótum og reynslan frá fyrri stórmótum gefur liðinu trú á að það geti staðið við væntingarnar þegar pressan er mest. Danmörk og Ísland mætast í Boxen í Herning í kvöld í undanúrslitum Evrópumótsins. Leikurinn hefst klukkan 19:30. Rasmus Lauge leikmaður Danmerkur og Bjerringbro-Silkeborg finnur fyrir pressunni en fer inn í úrslitahelgina með jákvæðni. „Það hlakka allir til helgarinnar og spila í troðfullri Boxen enn á ný. Auðvitað er pressa á okkur og allir búast við sigri okkar. Við vitum líka að þessar úrslitahelgar eiga sér sitt eigið líf en sem betur fer höfum við líka verið góðir í að standa okkur vel á síðustu stórmótum svo ég held að við séum vel undirbúnir,“ sagði Rasmus Lauge við TV 2 Sport. Danir sem eru fjórfaldir heimsmeistarar og ríkjandi Ólympíumeistarar hafa ekki unnið Evrópumótið síðan á EM 2012. Þeir hafa því beðið eftir Evrópumeistaratitli í 14 ár. Danmörk hefur tíu sinnum farið í undanúrslit keppninnar og unnið Evrópumótið tvívegis. Danir töpuðu gegn Frakklandi á síðasta Evrópumóti sem fram fór í Þýskalandi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.