Inga Dís Jóhannsdóttir (Kristinn Steinn Traustason)
Inga Dís Jóhannsdóttir skytta í liði Hauka í Olís-deild kvenna verður frá vegna meiðsla næstu vikurnar. Þetta staðfesti Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka í samtali við Handkastið. Inga Dís handleggsbrotnaði í leik Hauka gegn KA/Þór í 4.umferð deildarinnar og var þar af leiðandi ekki með liðinu í tapinu gegn ÍBV í 5.umferðinni í síðustu viku. Díana sagði óljóst hversu lengi Inga Dís yrði frá en mögulega yrði hún ekkert meira með Haukum fyrr en eftir HM-fríið í Olís-deildinni en þrjár umferðir eru eftir af deildinni áður en heimsmeistaramótið hefst í lok nóvember. Annað landsleikjafrí deildarinnar er í gangi núna en við taka síðan þrjár umferðir áður en deildin fer í sitt þriðja landsleikjafrí. Gera má ráð fyrir að Inga Dís verði klár í slaginn þegar stelpurnar hefja leik aftur í desember þegar tvær umferðir verða leiknar áður en þær fara í jólafrí.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.