Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson (Sævar Jónasson)
Ein óvæntustu úrslit íslenska handboltans í fleiri fleiri ár litu dagsins ljós í Grafarvoginum á mánudagskvöldið þegar Fjölnir sem situr í 9.sæti Grill66-deildarinnar sló út Olís-deildarlið Stjörnunnar í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Fjölnir vann sannfærandi sigur á Stjörnunni og hafa þar með tryggt sér í 8-liða úrslit Powerade-bikarsins ásamt sjö öðrum liðum í Olís-deildinni. Mörg ár eru liðin frá því að lið í Grill66-deildinni sló út lið í Olís-deildinni. Rætt var um sigur Fjölnis en þá aðallega frammistöðu Stjörnunnar í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Við gætum alveg setið hér og gagnrýnt þjálfara Stjörnunnar að hafa tapað gegn Fjölni en fyrst og fremst er það leikmennirnir í liðinu sem þurfa að líta í sinn eigin barm. Þeir ættu algjörlega að skammast sín,” sagði Einar Ingi Hrafnsson gestur Handkastsins. ,,Bæði það að tapa þessum leik en fyrir rekstur deildarinnar að missa rúmlega sjö milljónir sem Stjarnan fékk fyrir Final4 í fyrra. Útaf einhverju tapi gegn Fjölni sem leikur í Grill66-deildinni, er óboðlegt,” bætti Einar Ingi við. Stymmi klippari sem er gallharður Stjörnumaður tók undir orð Einars Inga. ,,Ég ætla ekkert endilega að skella skuldinni á þjálfarann, því að leikmenn eiga að geta mætt í þennan leik þjálfaralausir. Stillt þessu upp og vinna Grill66-deildarlið Fjölnis, sem gerðu virkilega vel en þeir sitja í næst neðsta sæti deildarinnar. Fjölnir hefur tapað gegn Selfossi 2, Haukum 2 og Val 2. Stjarnan var að vinna Selfoss 1 í gær, þetta er eins og í 6.flokki, Selfoss 1 og Selfoss 2.” ,,Það er eitthvað x mikið sem þú getur gert sem þjálfari af hliðarlínunni þegar leikmenn eru með hausinn upp í rassgatinu á sjálfum sér. Þeir eiga að skammast sín. Þetta er styrsta leiðin í Evrópu, þú þarft mögulega að vinna tvo leiki til að vera kominn í Final4 og þar bíða þín margar milljónir,” sagði Stymmi klippari og síðan sló þögn í stúdíó-ið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.