Íslenska landsliðið leikur í kvöld gegn Færeyjum. (BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)
Ísland mætir Færeyjum í Úlfarsárdalnum í kvöld klukkan 19:30 í fyrsta leik þjóðanna í undankeppni EM kvenna sem fram fer á næsta ári. Á sunnudag mætir Ísland síðan Portúgal ytra. Talsverðar breytingar hafa orðið á landsliðshópnum undanfarna mánuði, leikmenn hafa lagt skóna á hilluna, einhverjar eru í barneignarleyfi þá hafa meiðsli og persónuleg frí einnig haft áhrif á þann leikmannahóp sem Arnar Pétursson hefur í höndunum. RÚV tók saman lista á dögunum yfir þá leikmenn sem hafa verið í landsliðinu undanfarin misseri en eru nú annað hvort hættar eða gátu ekki tekið þátt í komandi verkefni. Berglind Þorsteinsdóttir, 35 landsleikir - í fríi frá handbolta Elín Jóna Þorsteinsdóttir, 70 landsleikir - í barneignarleyfi Hildigunnur Einarsdóttir, 106 landsleikir - hætt með landsliðinu Perla Albertsdóttir, 57 landsleikir- í barneignarleyfi Rut Arnfjörð Jónsdóttir, 124 landsleikir - hætt með landsliðinu - í barneignarleyfi Steinunn Björnsdóttir, 58 landsleikir - hætt með landsliðinu Sunna Jónsdóttir, 99 landsleikir - hætt með landsliðinu Þórey Anna Ásgeirsdóttir, 48 landsleikir - meidd Þórey Rósa Stefánsdóttir, 145 landsleikir - hætt með landsliðinu ,,Þetta eru miklar breytingar og kannski fullmiklar á einu bretti en þannig er bara staðan og við gerum vel úr þessu. Ég er spenntur fyrir því að takast á við þetta verkefni með þessum stelpum sem eru flestar búnar að vera eitthvað með okkur, en jú, eitthvað um ný nöfn líka,” sagði Arnar Pétursson í viðtali við Ríkissjónvarpið í aðdraganda leiksins gegn Færeyjum sem fram fer í kvöld. Auk Íslands, Færeyjar og Portúgal þá er Svartfjallaland með í riðlinum. Arnar segir leikina tvo sem framundan eru gríðarlega mikilvæga upp á framhaldið. ,,Bæði Færeyjar og Portúgal eru í mikilli framþróun og eru með marga mjög öfluga og spennandi leikmenn. Við erum það líka og ætlum okkur að gera vel og ná í punkta og stig sem að hjálpa okkur þá á þeirri vegferð að koma okkur inn á stórmót eftir rúmt ár.”
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.