Ísland - Færeyjar (HSÍ
Íslenska landsliðið mætti Færeyjum í Lambhagahöllinni í kvöld í fyrsta leik þeirra í undanriðli fyrir Evrópumótið sem fram fer á næsta ári. Íslenska liðið átti ekki góðan dag og unnu Færeyjar í raun nokkuð öruggan sigur 22-24. Íslenska liðið byrjaði leikinn illa þar sem skotnýting liðsins var afleit sem gerði það að verkum að liðið lenti 4 mörkum undir eftir fimmtán mínútna leik, 3-7, þegar Arnar Pétursson þjálfari tekur leikhlé og messaði yfir liðinu. Eftir þetta batnaði leikur liðsins og þær sneru taflinu við með betri skotnýtingu og góðum vörslum frá Hafdísi Renötudóttur í markinu sem skilaði jöfnum leik í hálfleik 11-11. Seinni hálfleikur var meira eins og byrjunin á leiknum og gengu þær færeysku á lagið gegn slakri íslenskri vörn og skoruðu fyrstu þrjú mörk hálfleiksins. Færeyjar náðu þó ekki að slíta íslensku stelpurnar frá sér sem jöfnuðu aftur um miðjan seinni hálfleikinn sem dugði skammt þar sem næstu þrjú mörk voru Færeyinga sem tóku frumkvæðið og létu það aldrei af hendi það sem eftir var leiks. Lokatölur í dag 22-24 í leik þar sem Hafdís Renötudóttir stóð uppúr og hélt íslenska liðinu inn í leiknum með mögnuðum markvörslum bakvið götótta vörn íslenska liðins. Sóknarleikurinn komst aldrei á skrið þar sem skyttur liðsins Díana Dögg 1/4, Thea Imani 0/3 og Andrea Jacobsen 1/5 nýttu sín skot ekki vel og gerði færeyska vörnin vel gegn árásum frá Elínu Klöru 4/7 og Elínu Rósu 2/2. Næst á dagskrá er ferðalag til Portúgal þar sem íslenska liðið spilar gegn heimakonum klukkan 16:00 á sunnudaginn. Markaskor Íslands: Katrín Tinna Jensdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Sandra Erlingsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1, Andrea Jacobsen 1. Hafdís Renötudóttir varði 16 skot 40%. Úrslit kvöldsins: Króatía - Finnland 25-17
Frakkland - Kósóvó 43-12
Svartfjallaland - Portúgal 29-22
Austurríki - Ísrael 39-30
Slóvenía - Belgía 29-22
Noregur - Rúmenía 29-27
Danmörk - Tékkland 41-25
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.