Reynir Þór Stefánsson (Kristinn Steinn Traustason)
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands valdi 17 manna leikmannahóp sinn fyrir komandi landsliðsverkefni á föstudaginn. Landsliðið kemur saman í lok október þar sem liðið æfir og leikur þar tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum. Fara leikirnir fram fimmtudaginn 30. október í PSD Bank Nürnberg Arena og loks sunnudaginn 2. nóvember í SAP Garden München. Handkastið hitti Snorra Stein í höfuðstöðvum HSÍ eftir að hópurinn var tilkynntur. Þar var Snorri Steinn spurður út í stöðuna á Reyni Þór Stefánssyni sem var í síðasta verkefni íslenska landsliðsins en Reynir gekk í raðir Melsungen í sumar frá Íslands- og bikarmeisturum Fram. Reynir Þór hefur ekkert komið við sögu í þýsku úrvalsdeildinni vegna veikinda en litlar fréttir hafa borist af Reyni frá því að hann fór til Þýskalands. Þær fregnir sem Handkastið hefur fengið síðustu vikur er að það sé alltaf að styttast í að hann komi aftur á völlinn en fáir aðilar hafa viljað tjá sig opinberlega um stöðu hans. ,,Ég þekki það ekki nægilega vel. Þú verður eiginlega bara að spyrja hans læknateymi. Annað hvort er maðurinn heill eða ekki heill," sagði Snorri Steinn um stöðuna á Reyni Þór. ,,Hann fékk einhverjar hjartabólgur ef ég skil þetta rétt. Ég heyrði í honum í september og þá horfði þetta til betri vegar en miðað við samtal mitt við Arnar Frey hefur Reynir Þór ekki enn byrjað að æfa með liðinu." Reynir Þór fór ekki með U20 ára landsliði Íslands á HM í sumar vegna meiðsla. Reynir Þór gerði ekki félagaskipti yfir til Melsungen nema nú á dögunum. Hann var því ekki löglegur með Melsungen fyrr en í síðustu viku. Verður það að teljast ansi athyglisvert. Snorri Steinn segir þetta óheppilegt fyrir Reyni Þór að lenda í svona löngum veikindum stuttu eftir komu sína í atvinnumennsku. ,,Það er auðvitað fyrst og fremst leiðinlegt fyrir hann, þegar þú ert að stíga þín fyrst skref í atvinnumennskunni. Þar fyrir utan hefur Melsungen verið í miklum meiðslavandræðum þannig þetta hefði verið gullið tækifæri fyrir hann," sagði Snorri sem vonast til að sjá Reyni á vellinum sem fyrst. ,,Hann er á þeim lista sem við fylgjumst með en ég get auðvitað ekki fylgst með æfingunum hjá þeim og legg það ekki í vana minn. Ef hann kemst aftur á gólfið þá fylgjumst við með honum.” Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.