wÍR (Sævar Jónasson)
Kvennalið ÍR í Olís-deild kvenna leikur tvo leiki á 42 klukkutímum en liðið fer í Mosfellsbæinn í kvöld og spilar gegn Aftureldingu í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Afturelding er í 5.sæti Grill66-deildarinnar á meðan ÍR er í 3.sæti Olís-deildarinnar með átta stig að loknum sex leikjum. Leikur Aftureldingar og ÍR hefst klukkan 19:30 og er lokaleikur 16-liða úrslit Powerade-bikarsins. Strax á laugardaginn mætir ÍR síðan aftur til leiks í Olís-deildinni þegar liðið fær Hauka í heimsókn í stórleik 7.umferðar deildarinnar. Haukar sitja hjá í 16-liða úrslitum bikarsins þar sem liðið er ríkjandi bikarmeistari. Það verður athyglisvert að sjá hvernig Grétar Áki Andersen rúllar á liði sínum bæði í leiknum í kvöld og á laugardaginn í tveimur gríðarlega mikilvægum leikjum fyrir ÍR-liðið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.