Patrekur Jóhannesson (Sævar Jónsson)
Patrekur Jóhannesson var sagt upp sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar en þetta tilkynnti félagið í fréttatilkynningu í gær. Liðið situr á botni Olís-deildarinnar án stiga eftir sex umferðir og tapaði gegn Grill66-deildarliði FH í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins í vikunni. Daginn eftir tilkynnti félagið að Patrekur og stjórn félagsins hafi náð samkomulagi um að Patrekur myndi stíga til hliðar. ,,Svona er þetta bara. Ég hef bæði verið þjálfari og leikmaður og ég veit alveg hvernig þetta er. Íþróttir snúast um að ná í sigra og ég var ekki að ná því með þetta lið,” sagði Patrekur í samtali við Stjörnuna. ,,Auðvitað er maður súr að þetta hafi endað svona en ég skil ákvörðunina. Ég get komið með fullt af útskýringum um hitt og þetta en svona er þetta bara. Við vorum ekki að ná að spila nægilega vel til að ná í sigra. Þú sem þjálfari þarft að ná í sigra og við vorum ekki að ná því." ,,Mér finnst búa miklu meira í þessu liði en það hefur sýnt hingað til og ég vona að þær nái að sýna sitt rétta andlit í komandi leikjum,” sagði Patrekur. ,,Það er verið að vinna gríðarlega gott starf í kringum liðið og það er öflug stjórn og allt til fyrirmyndar í kringum liðið. Þetta var bara ekki að smella og því fór sem fór,” sagði Patrekur að lokum. Stjarnan tekur á móti spútnik liði deildarinnar, KA/Þór í 7.umferð Olís-deildar kvenna á morgun klukkan 15:30 en Hanna Guðrún Stefánsdóttir mun stýra liðinu í leiknum á morgun.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.