Hanna Guðrún Stefánsdóttir (Sævar Jónasson)
Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur tekið við kvennaliði Stjörnunnar en þetta tilkynnir félagið í færslu sinni á samfélagsmiðlum félagsins. Henni til aðstoðar verður Arnar Daði Arnarsson. Hanna Guðrún tekur við liðinu af Patreki Jóhannessyni sem var rekinn úr starfi í síðustu viku. ,,Tvíeykið þarf vart að kynna til leiks en þau hafa bæði mikla ástríðu fyrir leiknum og hafa lagt sitt af mörkum fyrir þjóðaríþrótt okkar Íslendinga,” segir í tilkynningunni frá Stjörnunni. Hanna hefur verið aðstoðarþjálfari liðins síðustu misseri en á að baki langan og farsælan feril sem leikmaður, hún spilaði 28 ár í úrvalsdeildinni og var sæmd gullmerki Handknattleikssamband Íslands árið 2023 fyrir framúrskarandi feril, enda leikjahæsti leikmaður sögunnar og ein af þeim bestu. ,,Arnar Daði hefur mikla reynslu af þjálfum meistaraflokka og yngri flokka ásamt því að vera kennari í handboltaskóla framtíðarinnar. Arnar þekkir vel til deildarinnar og við teljum að hans þekking og reynsla muni hjálpa stelpunum okkar mikið í framhaldinu. Við erum afar stolt af því að hafa náð að leiða þessa tvo öflugu einstaklinga saman og bíðum spennt eftir að sjá þau taka næstu skref með ungt og efnilegt lið Stjörnunnar,” segir enn fremur í tilkynningunni frá Stjörnunni. Stjarnan fer í heimsókn í Breiðholtið á laugardaginn og mætir þar ÍR í 8.umferð Olís-deildarinnar en liðið er enn í leit af sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Liðið gerði jafntefli gegn KA/Þór í síðustu umferð en þann leik stýrði Hanna Guðrún ásamt Sverri Eyjólfssyni.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.