Sif Hallgrímsdóttir (Sævar Jónasson)
Sif Hallgrímsdóttir varði hvorki fleiri né færri en 18 skot í sjö marka sigri ÍR á Stjörnunni í 9.umferð Olís-deildar kvenna um helgina. ÍR vann leikinn 32-25 eftir að hafa verið 19-10 yfir í hálfleik. ÍR stelpur gat þakkað Sif fyrir þetta mikla forskot en hún gerði sér lítið fyrir og varði alls þrjú vítaskot frá leikmönnum Stjörnunnar. Boltabloggið á Facebook hefur verið duglegur að skrifa um það helsta sem er að gerast í Þjóðaríþróttinni síðustu misseri og vakti hann athygli á frammistöðu Sifjar í leiknum um helgina með skrifum sínum á Facebook síðu sína. ,,Sif Hallgrímsdóttir var í handbolta akademíunni hjá Haukum að mig minnir. Ég man hvað ég varð svekktur þegar hún fór norður í nám því ég ætlaði henni hlutverk í mfl. Markmenn sem verja með hugsun fremur en sprikli eru mér að skapi. Sif átti en einn stórleikinn gegn Stjörnunni í dag og er upgötvun ársins í Olís deild kvenna,” skrifaði Boltabloggið. Sif hefur farið vel af stað í marki ÍR það sem af er tímabili en hún gekk í raðir félagsins frá KA/Þór í sumar þar sem hún var varamarkvörður á eftir Mateu Lonac. ÍR situr í 2.sæti Olís-deildarinnar með 12 stig, tveimur stigum á eftir Val. Tvö efstu liðin mætast í lokaleik deildarinnar fyrir HM á miðvikudagskvöldið næstkomandi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.