Matthildur Lilja Jónsdóttir (Sævar Jónasson)
Eins og við höfum greint frá er Andrea Jacobsen leikmaður Blomberg Lippe í kapphlaupi við tímann að ná HM vegna meiðsla sem hún hlaut á æfingu þýska liðsins í síðustu viku. Það var Handbolti.is sem greindi fyrst frá en Andrea sleit liðband í ökkla á æfingu liðsins á föstudaginn í síðustu viku, daginn fyrir leik liðsins gegn Val í forkeppni Evrópudeildarinnar. Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðs Íslands sagði í samtali við Handbolta.is gera ráð fyrir því að velja 17. leikmann inn í hópinn vegna óvissunar með þátttöku Andreu á heimsmeistaramótinu. Athygli vakti að Grétar Áki Andersen þjálfari ÍR sagði í viðtali við Handkastið eftir sigur liðsins gegn toppliði Vals í gær að hann gerði ráð fyrir því að tveir leikmenn ÍR væru á leið á HM. Katrín Tinna Jensdóttir var valin í 16 manna leikmannahóp Íslands fyrir HM en miðað við orð Grétars Áka gerir hann ráð fyrir því að Matthildur Lilja Jónssdóttir verði kölluð inn í íslenska hópinn vegna meiðsla Andreu. ,,Við missum tvo leikmenn í landsliðsfrí-inu, reikna ég með í Matthildi og Katrínu. Þannig þá getum við einbeitt okkur að vinna í hinum," sagði Grétar Áki í viðtali við Handkastið í gær.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.