Arnar Pétursson (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Íslenska kvennalandsliðið hefur undirbúning sinn fyrir heimsmeistaramótið sem hefst á miðvikudaginn í næstu viku, í dag þegar liðið kemur saman á sinni fyrstu æfingu í Safamýrinni. Arnar Pétursson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins hefur kallað inn Matthildi Lilju Jónasdóttur leikmann ÍR í HM hóp íslenska liðsins. Matthildur Lilja er kölluð inn í hópinn vegna meiðsla Andreu Jacobsen leikmanns Blomberg-Lippe í Þýskalandi. Andrea sleit liðband á ökkla á dögunum og er þátttaka hennar á heimsmeistaramótinu sem hefst á miðvikudaginn í næstu viku talin ansi ólíkleg. Matthildur Lilja var í íslenska landsliðshópnum í síðasta verkefni án þess þó að fá tækifæri í tveimur töpum Íslands gegn Færeyjum og Portúgal. Matthildur hefur leikið vel með spútnik liði ÍR í Olís-deild kvenna en liðið er á toppi deildarinnar með 14 stig eftir níu umferðir með jafn mörg stig og Valur og ÍBV. Matthildur er rétthent skytta sem getur einnig spilað fyrir framan í 5-1 vörninni en hún er fædd árið 2004. Hún á einn landsleik að baki á ferlinum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.