KAKA (Egill Bjarni Friðjónsson)
Það er mikil eftirvænting fyrir stórleik 11.umferðarinnar í Olís-deild karla í kvöld þegar Akureyrarliðin KA og Þór mætast í KA-heimilinu. Leikurinn hefst klukkan 19:30 en uppselt er á leikinn. Leikurinn verður sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. KA sendi frá sér tilkynningu á samfélagsmiðlum sínum fyrr í dag þar sem sagt er að salurinn opni klukkan 18:15 eða 75 mínútum fyrir leik. Stuðningsmenn liðanna eru hvattir til að skilja bílinn eftir heima, mæta snemma og fá sér að borða í KA-heimilinu fyrir leik. Athygli vekur að í tilkynningunni frá KA kemur fram að allar flautur og confetti sprengjur séu bannaðar á svæðinu. ,,Mætum einfaldlega í stúkuna og styðjum okkar lið til sigurs,” segir ennfremur í tilkynningunni. Handkastið hefur heyrt af því að KA hafi einnig bannað gjallarhorn í stúkunni á leiknum og þá verða að hámarki þrjár trommur leyfðar á hvora stuðningsmannasveit, í það minnsta fyrir stuðningsmenn Þórs sem verða 300 talsins í stúkunni.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.