Elísa Elíasdóttir (THOMAS KIENZLE / AFP)
Íslenska kvennalandsliðið hefur tryggt sér sæti í milliriðli á heimsmeistaramótinu eftir fjórtán marka sigur í lokaleik sínum í riðlakeppni mótsins, 33-19 gegn Úrúgvæ. Það var ljóst frá upphafi leiks hvert sigurinn færi í leiknum en íslenska liðið hafði mikla yfirburði í leiknum og leiddi í hálfleik meðal annars 17-7. Ísland náði mest fjórtán marka forystu í stöðunni 27-13 en þær unnu seinni hálfleikinn einungis með fjórum mörkum. Sandra Erlingsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með sex mörk og Thea Imani Sturludóttir kom næst með fimm mörk. Elísa Elíasdóttir átti góða innkomu á línuna og skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum sem og Þórey Anna Ásgeirsdóttir í hægra horninu. Hafdís Renötudóttir varði sjö skot í markinu og var með 50% markvörslu og Sara Sif Helgadóttir lék seinni hálfleikinn og varði fimm skot og var með 31% markvörslu. Leikgleðin skein úr andlitum íslensku stelpnanna í fyrri hálfleik þar sem sigurinn vannst. Liðið stóð góða vörn og Hafdís var öflug í markinu. Þá var sóknarleikurinn agaður og flottur en það verður þó að segjast að mótspyrnan var ekki mikil. Í milliriðlinum mæta íslensku stelpurnar Svartfjallalandi, Færeyjum og Spáni en milliriðilinn hefst á þriðjudaginn. Sigurinn er sögulegur því íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei farið í milliriðil á heimsmeistaramóti en liðið er ríkjandi Forsetabikarsmeistari. Núverandi leikskipulag var tekið upp með 32 liðum á HM 2021.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.