Gunnar Róbertsson (Sævar Jónasson)
Gunnar Róbertsson leikmaður Vals og U18 ára landsliðs Íslands verður frá keppni fram yfir áramót. Þetta staðfesti Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við Handkastið en Gunnar meiddist illa í fyrri hálfleik í sigri Vals gegn Stjörnunni í 12.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið í síðustu viku. Gunnar fór í myndatöku daginn eftir leik og þar kom í ljós að hann hafi brákað viðbeinað og tognað. Ágúst gerir ráð fyrir því að hann verði frá keppni og æfingum í 6-8 vikur og missi þar af leiðandi af þeim þremur leikjum sem Valur á eftir fyrir áramót í Olís-deildinni. Þetta eru einnig slæm tíðindi fyrir U18 ára landsliðið og Gunnar sjálfan en þetta þýðir að hann missir af Sparkassen Cup í Þýskalandi milli jól og nýárs en hann var nýverið valinn í lokahópinn í því móti. Gunnar hefur spilað einkar vel með liði Vals í vetur en liðið heimsækir deildarmeistara FH heim í Kaplakrika næstkomandi föstudagskvöld. Valur er í 2.sæti Olís-deildarinnar með jafn mörg stig og Haukar sem sitja á toppi deildarinnar en eftir leikinn gegn FH mæta Valur nýliðum Þór og Selfoss áður en liðið fer í jólafrí.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.