Elísabet Ása Einarsdóttir - wGrótta (Eyjólfur Garðarsson)
Elísabet Ása Einarsdóttir hefur framlengt samning sinn við Gróttu til sumarsins, 2028. Þetta tilkynnti Gróttu á samfélagsmiðlum sínum fyrr í dag. Elísabet Ása er 18 ára gömul og leikur sem leikstjórnandi og skytta. Hún hefur verið í lykilhlutverki með 3.flokki félagsins undanfarin ár en Gróttuliðið hefur ekki tapað leik á þessu leiktímabili. ,,Í meistaraflokki hefur hún komið öflug inn í seinustu leikjum og valdið miklum usla í varnarleik andstæðinganna. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið 37 leiki með meistaraflokki. Elísabet Ása er öflug beggja megin vallarins. Hún er kraftmikill og hraður sóknarleikmaður auk þess að vera afbragðsvarnarleikmaður. Hún hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands og var til að mynda valin í seinasta landsliðshóp U20 ára landsliðsins sem æfði í nóvember," segir í tilkynningu Gróttu. Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttu er ánægður að Elísabet Ása sé búin að framlengja samningi sínum við félagið. „Það er gaman að vinna með Tásu, hún er viljug og virkilega öflugur leikmaður. Ég hlakka mikið til að hjálpa henni að verða enn betri leikmaður“, sagði Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn. Grótta er sem stendur í 2.sæti Grill66-deildarinnar með 14 stig, fjórum stigum á eftir HK sem er á toppi deildarinnar. Liðin mætast á föstudaginn næstkomandi í Kórnum klukkan 19:30.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.