HANDBALL-WOMEN-WORLD-FRA-NED (Robin van Lonkhuijsen / AFP)
Sjö leikir fóru fram á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Þýskalandi og Hollandi þessa dagana. Síðustu leikirnir í milliriðlunum voru leiknir í kvöld auk þess sem Forsetabikarinn hélt áfram. Það varð ljóst í kvöld hvaða lið leika til úrslita um Forsetabikarinn en íslenska kvennalandsliðið er ríkjandi Forsetabikarsmeistari. Það verða Króatía og Kína sem mætast í úrslitaleiknum um Forsetabikarinn. Króatía vann Paragvæ 30-17 í sínum riðli á meðan Kína vann Kúbu 34-30 en Króatía og Kína unnu sína riðla í Forsetabikarnum og mætast í hreinum úrslitaleik. Úrúgvæ vann Íran með ellefu mörkum 27-16 og þá vann Egyptaland tólf marka sigur á Kasakstan, 30-18. Egyptaland mætir Paragvæ um 27.sætið, Úrúgvæ mætir Kúbu um 29.sætið og loks mætast Íran og Kasakstan um 31.sætið. Þrír síðustu leikirnir í milliriðlunum fóru einnig fram í dag. Argentína vann dramatískan sigur á Túnis 30-29 eftir að hafa verið 17-10 yfir í hálfleik. Túnis lék frábæra í upphafi seinni hálfleiks og jöfnuðu metin í stöðunni 23-23 og komust yfir 25-24 og meiri segja einnig í 26-24. Argentína reyndist hinsvegar sterkari aðilinn í lokin og vann eins marks sigur. Með sigrinum endaði Argentína í 4.sæti riðilsins með tvö stig, jafn mörg stig og Túnis og Austurríki. Pólland vann Austurríki 35-30 og í lokaleik kvöldsins vann Holland óvæntan sigur á heimsmeisturum Frakka, 26-23 eftir að hafa verið 14-13 yfir í hálfleik. Holland var með undirtökin nánast allan leikinn á meðan Frakkar voru að elta. Með sigrinum endar Holland í 1.sæti milliriðilsins á meðan Frakkar enduðu í 2.sæti, bæði lið voru komin í 8-liða úrslitin fyrir leikinn í kvöld. 8-liða úrslit heimsmeistaramótsins hefjast síðan með tveimur leikjum. Klukkan 16:15 mætast Þýskaland og Brasilía og klukkan 19:30 mætast Noregur og Svartfjallaland.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.