Maren Aardahl (Henk Seppen / AFP)
Maren Aardahl varð í gær heimsmeistari með norska landsliðinu eftir sigur á Þýskalandi í jöfnum og spennandi úrslitaleik sem fram fór í Rotterdam í Hollandi. Línumaðurinn í liði Noregs skoraði eitt mark í úrslitaleiknum en Noregur vann leikinn með þremur mörkum 23-20. Maren Aardahl hefur verið að glíma við meiðsli allt mótið og afhjúpaði hvað var í gangi á bak við tjöldin hjá sér allt mótið í viðtali við TV 2 í Noregi eftir sigurinn í gær. ,,Ég hef verið að glíma við meiðsli á hæl allt mótið. Við höfum gert allt sem við getum til að lina verkina. Við notum mismunandi teipingar og púða og ég hef verið að ganga um hótelið á hækjum til að létta á fætinum," sagði Aardahl. Maren sem leikur með Odense í Danmörku viðurkennir að hún hefði ekki leikið með þessa verki ef um væri að ræða leik með félagsliði. Hún hélt spilunum þétt að sér í aðdraganda úrslitaleiksins en hún hafði ekki viljað gefa það út fyrir leikinn hvað væri að angra hana. Umræða skapaðist eftir leik Noregs gegn Svartfjallalandi í 8-liða úrslitunum þegar sást til hennar haltra eftir leikinn. ,,Þetta var þess virði að fórna sér fyrir þennan hóp. Ég myndi gera það aftur og aftur," sagði heimsmeistarinn að lokum í viðtali við TV 2.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.