Bjarki Már Elísson (Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands tilkynnir 18 manna lokahóp sinn á fimmtudaginn fyrir Evrópumótið sem hefst um miðjan janúar. Nokkrar vangaveltur eru meðal gárunga um það hvernig lokahópurinn mun líta út. Meðal annars er markvarðarstaðan hvort Snorri Steinn velji þrjá markmenn í lokahópinn líkt og hann gerði í síðasta landsliðsglugga. Einar Ingi Hrafnsson og Ásgeir Jónsson voru gestir í nýjasta þætti Handkastsins og þar voru málin rædd. ,,Stiven og Orri Freyr verða 100% - Bjarki Már verður ekki valinn. Ég held að sú saga sé sögð. Bjarki hefur staðið sig frábærlega og ég held að þetta sé ekki byggt á neinni frammistöðu. Þetta er byggt á skoðun Snorra og hans trú á þessum tveimur hornamönnum og ég held að það sé hægt að bera virðingu fyrir því," sagði Einar Ingi áður en Ásgeir Jónsson var spurður álits. ,,Ég er sammála Einari með þetta og síðan er þetta spurning hvort hann taki útileikmann í stað Þorsteins Leós eða tekur hann þriðja markmann. Spurningin er bara, hvaða útileikmaður er að fara spila framyfir Elvar Örn, Janus, Gísla og Hauk í þessum tveimur stöðum vinstri skyttu og miðju. Ég sé engan í fljótu bragði. Mér finnst helst að Donni verði valinn og Ómar geti farið á miðjuna,” sagði Ásgeir Jónsson. Umræðuna um vangaveltur um EM hópinn sem Snorri Steinn velur á fimmtudaginn má hlusta á í nýjasta þætti Handkastsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.