Þorsteinn Leó Gunnarsson (Kristinn Steinn Traustason)
Þorsteinn Leó Gunnarsson leikmaður Porto í Portúgal segist vera vongóður um að geta leikið með íslenska landsliðinu á EM í janúar. Þorsteinn Leó meiddist á nára í leik með Porto gegn Elverum í Evrópudeildinni og var talið afar ólíklegt á þeim tíma að hann yrði orðinn leikfær fyrir Evrópumótið sem hefst 15.janúar. Í viðtali við Vísi í dag segir Þorsteinn að hann sé að jafna sig fyrr en áætlað var og vonast til að geta tekið þátt á Evrópumótinu í janúar með íslenska landsliðinu. ,,Staðan er bara þokkalega góð, endurhæfingin hefur gengið mjög vel og ég er á undan áætlun. Eða eins og planið var þá er ég langt á undan áætlun. Þetta átti að taka 10-12 vikur en það eru bara komnar 4 vikur og ég er byrjaður að hlaupa og æfa án snertingar. Ég stefni á að vera heill fyrir janúar og er bara bjartsýnn á það að verða klár fyrir EM“ sagði Þorsteinn í samtali við Vísi en ítarlegt viðtal verður við hann í kvöldfréttum Sýnar í kvöld. Snorri Steinn Guðjónsson tilkynnir 18 manna leikmannahóp sinn fyrir EM í hádeginu á morgun og ríkir mikil eftirvænting fyrir því enda verður fróðlegt að sjá hvað Snorri Steinn gerir. Handkastið greindi frá því í síðustu viku að Þorsteinn Leó hefði óskað eftir því við stjórnarmenn Porto um að fá að fara til Íslands í meðhöndlun hjá sjúkrateymi íslenska landsliðsins. Vísir segir í frétt sinni að Þorsteinn hafi loks fengið grænt ljós frá stjórnarmönnum Porto og hann ferðast til Íslands á morgun.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.