Snorri Steinn Guðjónsson (ADA)
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands tilkynnti fyrr í dag 18 manna leikmannahóp sinn fyrir Evrópumótið sem hefst 15.janúar. Ísland hefur leik á mótinu föstudaginn 16.janúar er liðið mætir Ítalíu. Landsliðshóp Snorra Steins má sjá hér. Handkastið ræddi við Snorra Stein eftir valið í dag og mun á næstu dögum birta svör Snorra Steins við hinum og þessum spurningum Handkastsins. Til að byrja með vildum við fá að vita hver var erfiðasta ákvörðunin við val Snorra á lokahópnum að þessu sinni. ,,Það er ekkert leyndarmál að það var bæði mjög erfitt og leiðinlegt að skilja Stiven og Sigvalda eftir. Á margan hátt væri mjög auðvelt að velja þá og það hefði verið auðvelt að færa góð rök fyrir því að hafa valið þá og þeir eiga skilið að vera í þessum hóp. Þeir hafa verið oft áður og staðið sig vel," sagði Snorri Steinn og benti síðan á að meiðsli Þorsteins Leós leikmanns Porto í siðasta mánuði hafi sett strik í reikninginn. ,,Síðan settu meiðslin á Þorstein Leó strik í alskonar pælingar sérstaklega eftir síðasta landsliðsglugga þar sem mér fannst hann koma mjög vel inn í þetta. Við þurfum ekkert að ræða það neitt frekar að hann er sá leikur sem hefur eitthvað sem enginn annar í liðinu hefur en á sama tíma er þetta svona og ég þarf ekkert að pæla í því.” Frekari svör Snorra Steins má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.