Alfreð Gíslason (Swen Pförtner / dpa Picture-Alliance via AFP)
Alfreð Gíslason þjálfari þýska landsliðsins var harkalega gagnrýndur í danska sjónvarpinu í fyrradag eftir þriggja marka óvænt tap Þjóðverja gegn Serbíu í 2.umferð Evrópumótsins. Serbía vann leikinn 30-27 en leikhlé Alfreðs undir lok leiksins höfðu mögulega mikil áhrif á úrslit leiksins en hann tók leikhlé í þann mund sem Juri Knorr var að skora mikilvægt mark fyrir Þjóðverja. Í stað þess að vera horfa á sókn Þjóðverja var Alfreð að horfa á leikklukkuna og bíða eftir að leikmaður Þjóðverja sem var utan vallar með brottvísun gæti komið inná og í kjölfarið ætlaði hann að taka leikhlé. Það heppnaðist ekki betur en svo Þjóðverjar misstu mikilvægt mark og lokakafli liðsins í leiknum fór illa. Staðan var 26-25 á þessum kafla í leiknum og var Juri Knorr að jafna mögulega metin fyrir Þjóðverja. Eftir leikinn viðurkenndi Alfreð í viðtölum að hann hafi gert mistök. „Ég tók leikhlé á mjög slæmum tíma. Ég taldi bara niður þar til við vorum full mannaðir. Það var mín ákvörðun og hún var greinilega röng,“ sagði hann við TV 2 Sport eftir leikinn. Að sögn Alfreðs snerist ákvörðunin um að láta tímann renna út á meðan Þjóðverjar voru manni færri. Það kostaði Þjóðverja mikilvægt mark. Danski sérfræðingurinn Kasper Hvidt var, vægast sagt, hneykslaður þegar hann tjáði sig um leikinn: ,,Hvernig getur hann ekki fylgst með eigin sókn og séð hvað er að gerast á vellinum? Ég hef verið í handbolta í þúsund ár og ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði fyrrverandi landsliðsmarkvörðurinn Kasper Hvidt en Claus Møller Jacobsen var einnig skýr um hvað honum fannst um ákvörðun Alfreðs: „Þetta er algjörlega vonlaust,“ sagði hann við TV Sport eftir leikinn. Tapið þýðir að Þýskaland er nú undir mikilli pressu fyrir lokaleikinn gegn Spánverjum í riðlinum í kvöld. Þjóðverjar þurfa að vinna leikinn með að minnsta kosti þremur mörkum fari svo að Serbía vinni Austurríki í fyrri leik dagsins í riðlinum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.