
Dagur Gautason (KA)
Á dögunum tilkynnti KA að vinstri hornamaðurinn, Dagur Gautason væri genginn í raðir félagsins frá norska félaginu, Arendal. Dagur kemur því heim á Akureyri og leikur með KA út tímabilið en hann gerði samning við félagið til 2027. Handkastið heyrði í Degi hljóðið og spurði hann aðeins út í þá ákvörðun hans að koma heim á þessum tímapunkti. ,,Það var búinn að vera smá aðdragandi að þessu. Við vorum búnir að vera í smá bandi síðan í sumar, sem möguleiki á að koma heim eftir tímabilið. En síðan þróaðist þetta bara þannig að aðstæðurnar úti voru alls ekki góðar og þegar að Gústi (Ágúst Elí Björgvinsson) skrifaði undir í desember þróaðist þetta út í það að koma bara strax í janúar. Eftir að hafa tekið nokkur góð spjöll við umboðsmennina mína vorum við sammála um að þetta væri það rétta í stöðunni,” sagði Dagur sem segist lítast vel á það að vera kominn aftur heim í KA. ,,Þeir eru búnir að vera spila vel í vetur og það er búið að vera frábær stemming og ástríða í kringum liðið, sem að ég held að ég passi bara vel inn í. Ég þekki náttúrlega vel til flestra í liðinu þannig ég ætti ekki að vera lengi að koma mér inn í allt saman. Ég er bara spenntur að komast af stað og taka þátt í stemmingunni sem hefur verið í KA heimilinu í vetur.” Dagur segist halda því opnu að hann fari aftur út í atvinnumennsku strax í sumar. ,,Ég er mjög opinn fyrir því, ef að eitthvað spennandi kemur upp. Ég þarf bara svolítið að sjá hvernig málin þróast. Auðvitað væri draumurinn að komast aftur eitthvað út en ég er á sama tíma alveg opinn fyrir því að vera áfram fyrir norðan. Ég þarf bara að sjá hvað gerist og meta síðan stöðuna,” sagði Dagur Gautason að lokum fullur tilhlökkunar að hefja nýtt tímabil með KA en Olís-deild karla fer aftur af stað í byrjun febrúar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.