Danir hafa sett sig undir eins mikla pressu og þeir geta
{{brizy_dc_image_alt entityId=

Nikolaj Jacobsen - Danmörk (BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)

Óvæntustu úrslit Evrópumótsins hingað til litu dagsins ljós í Herning í gærkvöldi þegar fjórfaldir heimsmeistarar Danmerkur töpuðu á heimavelli gegn Portúgal í lokaleik riðlakeppninnar. Portúgal hafði betur 31-29.

Sigur Portúgals þýðir að liðið fer í milliriðil með tvö stig á meðan Danir mæta til leiks í milliriðilinn án stiga og mega ekki misstíga sig meira í keppninni ætli þeir sér að landa fyrsta Evrópumeistaratitlinum síðan 2014 og þeim fyrsta undir stjórn Nikolaj Jacobsen.

,,Ég er bæði vonsvikinn og reiður, en einhvers staðar er það líka verðskuldað. Í dag erum við ekki að ná því sem við þurfum, og það er óvenjulegt fyrir okkur. Við gerum of mörg mistök, gerum of mörg mistök undir pressu og eigum erfitt með að finna það flæði í leiknum sem við vorum að leitast eftir og erum þekktir fyrir,” sagði Nikolaj Jacobsen.

Leikurinn einkenndist af mikilli ákefð og nokkrum umdeildum ákvörðum dómaranna en Nikolaj vildi ekki benda á dómarana sem úrslitaþátt leiksins.

,,Dómararnir hafa verið mikið í sviðsljósinu, en þetta er leikur með mikilli ákefð og það verða alltaf ákvarðanir sem hægt er að ræða. Í dag held ég að við getum ekki notað dómarana í neitt. Við verðum að horfa í eigin barm og bæta okkur í þeim hlutum sem við erum venjulega mjög góðir í. Ég er auðvitað vonsvikinn að við séum svona langt frá þeim stað sem við búumst við af okkur sjálfum. Ég hafði vonast eftir einhverju öðru, en í dag er bara hægt að segja að Portúgal hafi verið betri og að við náðum ekki þeirri frammistöðu sem þarf til að vinna slíkan leik.”

Danmörk mætir Frakklandi í fyrsta leik milliriðilsins á morgun en Frakkar eru með tvö stig eftir sigur á Noregi 38-34 á mánudaginn.

„Þetta er mjög erfitt fyrir okkur. Við byrjum gegn Frakklandi á fimmtudag, svo við höfum sett okkur undir eins mikla pressu og við getum. Nú snýst þetta um að sjá hvort við getum unnið næstu fjóra leiki og svo sjáum við hvernig þetta þróast allt saman.“

Nýjustu fréttir

{{brizy_dc_image_alt imageSrc=

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top