Einar Þorsteinn áritar (Sævar Jónasson)
Á 35 mínútu í leik Íslands og Ungverjalands var íslenska landsliðið búið að missa bæði Elvar Örn Jónsson og Ými Örn Gíslason úr leiknum. Elvar Örn handarbrotnaði í fyrri hálfleik og verður ekki meira með á mótinu og Ýmir Örn fékk rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks. Innkoma Einars Þorsteins Ólafssonar verður lengi í minnum höfð en Einar Þorsteinn hafði ekkert leikið á mótinu fyrir leikinn vegna veikinda. Snorri Steinn ákvað hinsvegar að kalla hann inn í hópinn fyrir leikinn gegn Ungverjum þrátt fyrir að Einar væri ekkert búinn að æfa með liðinu í aðdraganda leiksins. ,,Það blés nú ekki byrlega þegar Einar Þorsteinn mætti eins og dádýr í flóðljósum og lét skeina sér í tvígang. Drengurinn var búinn að vera veikur síðustu daga en neinei síðan ákveður hann að breytast í Jackson Richardson, hann var gjörsamlega stórkostlegur,” sagði Tómas Þór Þórðarson sem var annar af gestum Handkastsins í uppgjörsþættinum eftir sigur Íslands á Ungverjum. Jackson Richardson gerði garðinn frægan með franska landsliðinu á árunum 1990-2005 og vann meðal annars til gullverðlauna á HM 1995 á Íslandi með franska landsliðinu. Hann vann alls til sex verðlauna á HM með franska landsliðinu, þar á meðal þrívegis gullverðlaun. ,,Allt sem pabbi hans (Ólafur Stefánsson) hafði sagt í Biðstofunni (Hlaðvarp RÚV fyrir mótið) reyndist allt satt. Sérstaklega fótavinnan. Við vitum að hann getur verið aggressívur en síðan hvernig hann var að stýra leikmönnum Ungverja og elta þá uppi og læsa þá, hann var geggjaður,” bætti Tómas Þór við. Fyrrum landsliðsmaðurinn, Stefán Rafn Sigurmannsson var einnig gestur Handkastsins í þættinum og tók undir orð Tómasar. ,,Mér fannst hann frábær og líka hvernig það kemur allt önnur dýnamík á vörnina. Hann var aðeins að fara út og klára þau brot. Mér fannst þetta frábær innkoma hjá honum.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.