Antonio Serradilla - Mathias Gidsel (Ronny HARTMANN / AFP)
Milliriðill 1 fór af stað í dag með þremur frábærum og einstaklega jöfnum leikjum en talað var um fyrir mót að þessi riðill yrði sá sterkari og miðað við leiki dagsins skal engan undra. Fyrsti leikur dagsins var á milli Þjóðverja og Portúgals en bæði lið mættu til leiks með 2 stig sem þau tóku með sér úr forkeppninni. Portúgalar fóru betur af stað í leiknum áður en Þjóðverjar náðu vopnum sínum og staðan jöfn í hálfleiknum, 11-11. Liðin skiptust á því að leiða til að byrja með í síðari hálfleiknum en þegar korter var eftir af leiknum komust Þjóðverjar tveimur mörkum yfir og Portúgalar náðu aldrei að jafna metin eftir það, fengu nokkur tækifæri til þess en á endanum voru Þjóðverjar sterkari, lokatölur 32-30 og Þjóðverjar í frábærum málum þrátt fyrir að vera næstum því farnir heim fyrir nokkrum dögum þegar þeir töpuðu óvænt fyrir Serbíu. Annar leikur dagsins fór fram á milli Norðmanna og Spánverja en bæði lið mættu til leiks án stiga og því má segja að tapliðið í leiknum væri mjög ólíklegt að komast lengra í mótinu. Það má segja að svipað hafi verið uppá teningnum í þessum leik og í fyrsta leiknum. Spánverjar byrjuðu betur og náðu tveggja marka forystu áður en Norðmenn komu til baka og liðið skiptust á að leiða þar til að hálfleiknum kom, staðan jöfn í hálfleik 16-16. Spánverjar voru svo sterkari í fyrri hluta síðari hálfleiksins og voru í flottum málum þegar korter var eftir en þá var munurinn þrjú mörk. Þá virtist allt fara í baklás hjá liðinu og Norðmenn gengu á lagið, þeir jöfnuðu metin og komust yfir þegar sex mínútur voru eftir. Spánverjar náðu að jafna en Norðmenn áttu seinasta orðið og skoruðu sigurmarkið, lokatölur 34-35 og Spánverjar neðstir án stiga. Síðasti leikur dagsins og líklega sá stærsti var þegar Danir mættu Frökkum, það var allt undir hjá Dönum því þeir einfaldlega máttu ekki tapa því þá væru þeir komnir fjórum stigum á eftir bæði Frökkum og Þjóðverjum og bara sex stig eftir í pottinum. Það sást á liðinu að þarna væri mótið undir en þeir virtust nokkuð stressaðir og voru hægir í gang. Frakkarnir fóru vel af stað og leiddu meirihluta fyrri hálfleiksins, staðan í hálfleiknum 12-11 fyrir Frakka. Danir komu öflugir út í síðari hálfleikinn en sóknarleikurinn flaut mikið betur og Mathias Gidsel fór að draga vagninn ásamt Emil Nielsen sem var sterkur í markinu. Danir komust í fyrsta sinn tveimur mörkum yfir þegar rétt undir tuttugu mínútur voru til leiksloka. En tíu mínútum seinna fór um fólkið í Herning því Frakkarnir snéru leiknum sér í vil og voru sjálfir komnir tveimur mörkum yfir. Þá sýndu Danir af hverju þeir eru besta landslið í heimi, þeir voru hreinlega magnaðir á báðum enda vallarins seinustu átta mínútum leiksins og unnu þann kafla 8-3 og að lokum unnu þeir frábæran sigur í einum af leikjum mótsins, 29-32 og riðillinn orðinn galopinn þar sem fjögur lið eru með 2 stig, Þjóðverjar á toppnum með 4 stig og Spánverjar með 0 stig á botninum. Úrslit dagsins: Þýskaland 32-30 Portúgal Spánn 34-35 Noregur Frakkland 29-32 Danmörk

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.