
wSelfoss (Sævar Jónasson)
Selfoss tók á móti ÍR í 14.umferð Olís deildar kvenna á Selfossi í dag. Bæði lið voru í leit af sigri en gengi liðanna hafði ekki verið gott upp á síðkastið. Heimakonur byrjuðu leikinn mun betur og komust í 4-1 eftir um fimm mínútna leik. ÍR rankaði þá aðeins við sér og jafnaði leikinn í 5-5 og var jafnræði með liðunum næstu mínútur allt þar til ÍR náði fimm marka forskoti þegar tæpar 10 mínútur voru til hálfleiks. Selfoss náði aðeins að klóra í bakkann áður en flautað var til hálfleiks en ÍR leiddu með þrem mörkum, 17-20. Síðari hálfleikur var eign ÍR og náðu Selfoss aldrei að ógna forskotinu sem ÍR var komið með og niðurstaðan var öruggur sjö marka sigur ÍR, 30-37. Sigur ÍR var langþráður en þær höfðu ekki unnið leik síðan 12.nóvember þegar þær unnu Val á Hlíðarenda. Selfoss eru ennþá í neðsta sæti deildinnar með fimm stig eftir leik dagsins. Mia Kristin Syverud var markahæst hjá Selfoss í dag með 8 mörk en hjá ÍR var Sara Dögg Hjaltadóttir markahæsta með 9 mörk.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.