Daniel Dujsebaev (ANDRZEJ IWANCZUK / NurPhoto via AFP)
Samkvæmt heimildum Handkastsins gæti farið svo að spænski landsliðsmaðurinn, Daniel Dujshebaev fari á óvæntar slóðir næsta tímabil. Samningur bræðranna, Alex og Daniel Dujshebaev renna báðir út í sumar við pólska stórliðið, Kielce er þeir hafa leikið undanfarin ár. Þeir gáfu það báðir út fyrir tímabilið að þetta væri þeirra síðasta tímabil með Kielce. Faðir þeirra, Talant Dujshebaev er þjálfari Kielce. Hafa bræðurnir báðir verið orðaðir við stór félög að undanförnu en nú virðist flest benda til þess að Daniel Dujshebaev muni leika með RK Zagreb í Króatíu næsta tímabil. Samkvæmt heimildum Handkastsins reyndi króatíska liðið einnig að fá Alex til sín en þær viðræður gengu ekki upp. Var Alex Dujshebaev í gær orðaður við þýska stórliðið, Kiel. Báðir eru þeir í eldlínunni með spænska landsliðinu á Evrópumótinu en Spánn mætir Dönum í öðrum leik þjóðanna í milliriðlinum í dag klukkan 17:00.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.