Snorri Steinn Guðjónsson (Johan Nilsson/TT / various sources / AFP)
Sænska handknattleiksþjálfarinn, Andreas Stockenberg er lítt hrifinn af íslenska landsliðinu og leikstíl liðsins en hann lét skoðanir sínar í ljós á samfélagsmiðlunum X í gær. Segja mætti að hann hafi verið í yfirvinnu á lyklaborðinu í gær. Andreas Stockenberg er í dag þjálfari hjá sænska félaginu Önnereds en hann þjálfaði á sínum tíma sænska úrvalsdeildarfélagið, Amo og fékk meðal annars til sín Íslendinginn, Arnar Birki Hálfdánarson sem enn leikur með liðinu. Andreas Stockenberg er maður mikla skoðana. Honum var ekki skemmt yfir leik Íslands og Króatíu í gær sem Króatía unnu með einu marki 30-29. Króatía var fjórum mörkum yfir í hálfleik 19-15 og höfðu forskot nær allan leikinn. Meðal ummæla sem Andreas Stockenberg lét falla á samfélagsmiðlinum X í gær voru þau að hann var ekki hrifinn af leikaraskap Íslands í leiknum. ,,Vandræðalega lélegur handbolti Íslands býður uppá þetta og með svona góða leikmenn sé það sorglegt,” sagði Andreas meðal annars. En þar var hann að svara öðrum Svía sem var að ræða leikaraskap Króata í leiknum. ,,Íslendingarnir eru verri í leikþætti, þvílíka skítaliðið.” ,,Kristianstad riðillinn var sæmilega ruslið,” skrifaði Stockenberg ennfremur og á þá við riðilinn sem Ísland lék í riðlakeppninni með Póllandi, Ítalíu og Ungverjalandi en Ungverjaland rétt marði stig gegn Sviss í gær eftir að hafa verið undir nær allan leikinn. Ísland og Svíþjóð mætast í Malmö á morgun í öðrum leik liðanna í milliriðlinum en Svíar eru með fullt hús stiga, fjögur stig á meðan Ísland er með tvö stig. Andreas Stockenberg sér ekki hvernig Svíar eigi að tapa leiknum á morgun miðað við ummæli hans á X. ,,Ég sé ekki hvernig þetta hörmulega íslenska lið eigi einhvern séns í Svía,” skrifaði Andreas Stockenberg og áfram hélt hann. ,,Íslenska liðið er leiðinlegra en Magdeburg." Það er vonandi að Strákarnir okkar sjái þessi skilaboð og hengi þau jafnvel upp á vegg í búningsklefa sínum fyrir leik. Ísland þarf á sigri að halda gegn Svíþjóð á morgun til að auka líkurnar á því að vinna sér inn sæti í undanúrslitum Evrópumótsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.