
Mateo Maras - Króatía (Andreas Hillergren/TT /AFP)
Það mætti segja að Mateo Maras hægri skytta króatíska landsliðsins hafi skotið íslenska landsliðið í kaf í eins marks sigri Króatíu á Íslandi í gær í fyrsta leik þjóðanna í milliriðli Evrópumótsins. Leiknum lauk með eins marks sigri Króatíu, 30-29 en staðan í hálfleik var 19-15 Króötum í vil. Farið var yfir leikinn í uppgjörsþætti Handkastsins í gær þar sem Stymmi klippari fékk þá Ásbjörn Friðriksson og Kristin Björgúlfsson til að gera upp leikinn. Þar var meðal annars rætt um Mateo Maras sem sem skoraði hvorki fleiri né færri en sjö mörk í leiknum úr tíu skotum. Það sem gerir þá tölfræði enn ótrúlegri er það að Maras hafði ekki skorað mark á mótinu í fyrstu þremur leikjum Króatíu á mótinu. Mateo Maras var ekki í leikmannahópi Króatíu í tapinu gegn Svíþjóð sem var síðasti leikur liðsins fyrir leikinn gegn Íslandi. Mateo Maras er leikmaður Paris Saint Germain í frönsku úrvalsdeildinni en rætt var um frammistöðu hans í uppgjörsþætti Handkastsins í gær og velt því fyrir sér hvernig það gat gerst að leikmaður á borð við Maras gæti skorað heil sjö mörk utan af velli gegn íslenska landsliðinu. ,,Það er spurning á móti svona leikmanni sem er bara með skot og enga fintu, hefðum við átt að fara lengra út í hann heldur en til dæmis Martinovic sem getur fintað. Hvor varnarmaðurinn ætlar í hann? Má ekki bara fara í hann? Svona leikmaður er ekkert að fara detta á hnakkann þó þú ýtir aðeins í hann," sagði Ásbjörn Friðriksson meðal annars í uppgjörsþætti Handkastsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.