Sergey Hernandez (JESSICA GOW / TT News Agency via AFP)
Spánverjar þurfa á sigur að halda gegn fjórföldum heimsmeisturum Danmerkur í Herning í dag í öðrum leik liðanna í milliriðli Evrópumótsins. Spánverjar er á botni milliriðilsins án stiga á meðan Danir eru með tvö stig eftir sigur á Frökkum í síðustu umferð. Markvarslan hjá Spánverjum á mótinu hefur ekki verið upp á marga fiska og nefndi Lasse Svan það í umfjöllun sinni fyrir leikinn í dag á TV 2 Sport í Danmörku. ,,Við bjuggumst við miklu frá Sergey Hernandez, sem hefur spilað frábærlega með Magdeburg í langan tíma en það hefur verið vonbrigði að sjá hvernig hann hefur spilað á þessu móti og það hlýtur líka að vera vonbrigði fyrir Spán,“ sagði Lasse Svan við TV 2 Sport. Með Sergy Hernandez er Nacho Biosca markvörður Nantes í frönsku úrvalsdeildinni. Biosca er sagður vera á leið til Gummersbach í sumar og eigi þar að fylla skarð Dominik Kuzmanovic sem er á leið til Magdeburg. Perez de Vargas er ekki í leikmannahópi Spánar á þessu móti en hann gekk í raðir Kiel í sumar frá Barcelona. Vargas sleit krossband á síðasta tímabili með Barcelona en er kominn aftur á völlinn og farinn að spila með Kiel í þýsku úrvalsdeildinni. Jordi Ribera ákvað hinsvegar að velja hann ekki á Evrópumótið. Spánn og Danmörk mætast klukkan 17:00 í dag. Þýskaland og Noregur er síðan lokaleikur dagsins klukkan 19:30.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.