Haukur Þrastarson (Sævar Jónasson)
Haukur Þrastarson fékk þungt högg í leik Íslands gegn Króatíu í gær og þurfti að fara af velli. Hann virðist sárþjáður á varamannabekk Íslands í kjölfarið og fór inn í búningsherbergi áður en fyrri hálfleikurinn var allur. Það kom mörgum á óvart að Haukur hafi síðan komið aftur inná völlinn í seinni hálfleik en hann náði sér ekki á strik. Handkastið hitti á Hauk fyrir æfingu landsliðsins í Malmö í dag. Haukur baðst undan því að vera í mynd en Haukur er vel bólginn í andlitinu eftir höggið í gær. ,,Heilsan er fín. Ég fæ smá kjaftshögg og það þurfti að sauma nokkur spor í vörina. Ég fór í skoðun í morgun og þetta kom ágætlega út, ég er í fínu standi og ég er klár í slaginn á morgun,” sagði Haukur sem segist ekki hafa neinar áhyggjur af heilsu sinni. ,,Ég fór í nánari skoðun í morgun sem kom vel út. Það þurfti að skoða kinnbeinið í morgun og það leit vel út.” En hafði þetta áhrif á Hauk er hann kom aftur inná í seinni hálfleiknum í leiknum í gær? ,,Það var ekkert sem var að trufla mig. Það var búið að græja allt í hálfleik og það er engin afsökun yfir því að ég hafi ekki verið í takti í seinni hálfleik. Þetta mun ekki hafa áhrif á mig í leiknum á morgun.” ,,Það var svekkjandi að detta úr þessu ef svo mætti segja. Það var lítið hægt að gera í því, það þurfti að sauma þetta. Það var svekkjandi og svíður eins og margt í þessum leik. Það var margt í þessum leik sem við viljum ekki sjá í okkar leik. Það vantaði upp á ákveðna hörku og vorum full linir. Það eru hlutir sem verða að vera til staðar og það ætti að vera auðvelt að laga. Góða við það er að það er leikur strax á morgun,” sagði Haukur Þrastarson að lokum í samtali við Handkastið. Ísland mætir heimamönnum í Svíþjóð klukkan 17:00 í Malmö Arena á morgun í algjörum lykilleik fyrir íslenska liðið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.