
Viggó Kristjánsson (JOHAN NILSSON / TT News Agency via AFP)
Í uppgjörsþætti Handkastsins eftir átta marka sigur Íslands gegn Svíþjóð, 35-27 í Malmö Arena á sunnudaginn var hringt úr Rapyd stúdíó-inu til Svíþjóðar þar sem Arnar Daði Arnarsson, Sérfræðingurinn var staddur en hann var á leiknum fyrir hönd Handkastsins. Einar Ingi Hrafnsson og Ásgeir Jónsson voru gestir Stemma klippara en Einar Ingi spurði Sérfræðinginn varðandi það, hvernig hann sjái fyrir sér Snorra Stein snúa sér að hlutverkaskiptingunni í hægri skyttunni eftir stjörnu frammistöðu Viggós Kristjánssonar sem skoraði ellefu mörk í leiknum úr ellefu skotum. Spilmínútur Viggós á mótinu fyrir leikinn í gær var að margra mati orðið lögreglumál. ,,Þetta er allavegana ekki þægileg staða fyrir Snorra Stein. Ómar er auðvitað frábær leikmaður og hefur verið frábær með Magdeburg en Ómar hefur ekki verið frábær með íslenska landsliðinu, það verður bara að segjast. Höfum það hinsvegar á hreinu að Ómar var ekki lélegur gegn Króatíu, það sem ég var hinsvegar að kalla eftir, eftir Króata leikinn var að Ómar færi á miðjuna og Viggó hægra megin. Því Janus Daði Smárason hefur ekki verið að finna sig vinstra megin og fyrst Elvar Örn er dottinn út og Þorsteinn Leó er ekki leikfær þá höfum við ekki efni á því að vera með Viggó á bekknum. Þá verðum við að vera eitthvað með Ómar á miðjunni og Viggó hægra megin.” ,,Ætli Ómar byrji ekki í hægri skyttunni, sem er bara allt í lagi. Það er enginn að segja að Ómar sé búinn að vera lélegur. Við þurfum bara meira frá honum og við þurftum það sem við fengum frá Viggó í þessum leik. Hann var ískaldur á vítalínunni og allt það. Það er frábært og gott fyrir Snorra Stein að vita til þess að ef Ómar er ekki að skila sínu að þá er Viggó klár og það þarf ekkert að efast um það,” sagði Arnar Daði. ,,Megum við ekki líka bara gera ráð fyrir því að axlirnar á Ómari fari aðeins niður og þessi þunga landsliðstreyja á Ómari verði aðeins léttari þegar hann finnur að hann sé kominn í eitthvað teymi með Viggó,” skaut Einar Ingi inní ræðu Arnars Daða. ,,Við sáum það bara strax þegar hann kemur inn í seinni hálfleikinn. Fyrsti sem hann gerir er að eiga stöðuskot fyrir utan sem við höfum ekki séð allt mótið. Ég held að þessi frammistaða Viggós hafi gríðarlega jákvæð áhrif á Ómar. Enn og aftur, landsliðstreyjan hefur verið þung á Ómari en Viggó er bara… vá!,” sagði Arnar Daði meðal annars í viðtalinu frá Malmö. Íslenska landsliðið mætir því svissneska klukkan 14:30 í Malmö í dag í næst síðasta leiknum sínum í milliriðli Evrópumótsins. Ísland dugar að vinna báða sína leiki til að tryggja sér sæti í undanúrslitum mótsins.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.