Zvonimir Srna ((Photo by Andreas Hillergren/TT / TT NEWS AGENCY / AFP)
Handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen segist vel skilja þá óánægju sem ríkir hjá króatíska landsliðinu í garð Evrópska handknattleikssambandsins (EHF) vegna aðstæðna á mótinu. Hann bendir á að Króatar hafi, líkt og Íslendingar, þurft að leika úrslitaleiki tvo daga í röð. Í kjölfarið hafi bæði liðin þurft að verja heilum degi í ferðalag til Danmerkur, þar á meðal fimm klukkustunda rútuferð. Að auki hafi Króatar, einir liða í undanúrslitum, verið staðsettir í um 40 kílómetra fjarlægð frá keppnishöllinni. „Þetta er ekkert nýtt,“ segir Rasmus og bætir við að oft séu miklar skekkjur í leikjaskipulagi og aðstæðum á stórmótum. Að hans mati verði EHF einfaldlega að tryggja jafnræði í keppni. „Því miður er sanngirni í íþróttum af skornum skammti – bæði á stórmótum landsliða og í evrópskum félagskeppnum,“ segir Rasmus Boysen að lokum. Undanúrslitin hefjast á morgun en Þýskaland og Króatía mætast í fyrri undanúrslitunum og hefst sá leikur 16:45 áður en við Íslendingar mætum Danmörku í leik sem hefst 19:30. Leikið verður í Herning í Danmörku.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.