Oddur Gretarsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Íslenska landsliðið leikur í undanúrslitum Evrópumótsins gegn Danmörku í kvöld klukkan 19:30 í Boxen í Herning í Danmörku í kvöld. Handkastið fékk góð vini sína til að spá í spilin fyrir leikinn í kvöld en mikil tilhlökkun er fyrir leiknum en þetta er í fyrsta skipti síðan á EM 2010 sem Ísland leikur í undanúrslitum. Íslenska þjóðin hefur því beðið eftir þessu í 16 ár. Sjáum hvað spekingar Handkastsins spá fyrir um fyrir leikinn í kvöld: Karl Erlingsson - Handboltaþjálfari og spekingur: ,,31-29 fyrir Ísland. Leyfi mér að vera bjartsýnn. Meiri pressa á Dönum og við höfum allt að vinna. Varnarlega náum við að hægja á þeim og slá taktinn úr leik þeirra. Sóknarlega springur Ómar út. Oddur Gretarsson - Leikmaður Þórs og fyrrum landsliðsmaður: ,,Hér fáum við að sjá sennilega tvö bestu sóknarlið heims í dag. Þess vegna er lykilatriði að við spilum okkar besta varnarleik hingað til og fáum markvörslu og ég er 100% á að Viktor hitti á fullkominn leik í dag sem gefur liðinu þessa aukaorku sem við þurfum á að halda gegn Dönum. Ég reikna með að við munum byrja betur í leiknum, verðum yfir með 3 í hálfleik. Danir koma til baka í seinni hálfleik og verða með yfirhöndina en við vinnum að lokum í framlengdum leik 36-35. Bjarki fer inn úr horninu í lok leiks, sækir snertingu og fær víti. Viggó stígur á punktinn, ískaldur, og tryggir okkur áfram í úrslitaleikinn!" Þórey Rósa Stefánsdóttir - Fyrrum landsliðskona ,,Það er eitt að vona, annað að trúa og þriðja að vera aðeins niðri á jörðinni. Leikur í dag þar sem allt er undir á móti Dönum í stútfullu Boxen í Herning. Danir eru með ansi beitt vopn í sínum leik sem ég hræðist, þ.e. ótrúlegar skyttur og bangsinn í markinu. Spáin mín niðri á jörðinni er því 35-28 Dönum í vil. Ég efast ekki um að strákarnir muni gera allt sem í þeirra valdi stendur og skilja líf og sál eftir á vellinum fyrir land og þjóð - en því miður tel ég að við eigum ekki nógu mikið inni fyrir meiru á móti þessu danska liði. EN, trúin flytur fjöll og Íslendingar þurfa alltaf að halda í það hugarfar, því það gerir okkur svo einstök og frábær! Og ég trúi því að góðir hlutir geti gerst í dag, gangi allt í okkar leik upp á 10. Við höfum engu að tapa. Og ég vona að við náum að sturta þessari spá minni í klósettið eftir leik, skellihlæjandi að þessu öllu saman. ÁFRAM ÍSLAND, stórasta land í heimi, alltaf!" Theodór Ingi Pálmason - Handboltaspekingur: ,,Það kom á daginn að leiðin var vissulega greið þó að við höfum ekki farið beint yfir Hellisheiðina heldur Suðurstrandarveginn í gegnum hraun og eldgos en hér erum við komin. Leiðin í úrslitaleikinn er eins ógreið og hún verður. Fjórfaldir heimsmeistarar Danir á þeirra heimavelli. Þarna mætast tvö bestu sóknarlið mótsins. Að mínu mati er íslenska liðið besta liðið 6 á 6 en Danirnir lang bestir að keyra 1, 2 og 3 tempó og halda þessum svokallaða þrýstingi á vörn andstæðinganna og fá auðveld mörk. Þetta verður erfitt verkefni og við erum í undirtölu í stúkunni en ég upplifði kraftaverk í Malmö og vegir guðs eru órannsakanlegir og ég ætla trúa því aftur að við náum upp alvöru geðveiki. Sóknarleikurinn verður eins og smurð vél og Viktor Gísli verður betri en Emil Nielsen er algjört lykiltatriði. Við vinnum ótrúlegan 35-33 sigur og förum í úrslitin.” Mikael Nikulásson - Handboltaspekingur: ,,30-29 Ísland menn hljóta að vera orðnir það þreyttir á þessum Dönum sem virðast stjórna öllu í kringum þennan sirkus sem þetta mót er orðið að þeir tapa ekki fyrir þeim." Ingimundur Ingimundarson - Fasteignasali og fyrrum landsliðshetja: 36-35 Ísland eftir framlengingu Baldur Fritzson - Þjálfari og fyrrum landsliðshetja: 36-35 ísland eftir framlengingu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.