Snorri Steinn Guðjónsson (Johan Nilsson/TT / various sources / AFP)
Snorri Steinn Guðjónsson var í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur á RÚV rúmum hálftíma fyrir undanúrslitaleik Íslands gegn Danmörku í Herning í Danmörku. Leikurinn hefst klukkan 19:30 í kvöld og sæti í úrslitaleik gegn Þýskalandi er í boði. Edda Sif spurði Snorra Stein hvernig dagurinn hefur verið hjá honum og hvernig honum líði? ,,Mér líður ágætlega. Þetta hefur verið ágætis dagur, oft verið verra. Ég er auðvitað spenntur og stressaður en mér finnst góð holning á okkur. Það er alveg ró og yfirvegun en líka mikil einbeiting." ,,Þetta verður alveg flókið. Við erum að fara spila á móti mjög góðu liði en auðvitað þurfum við að njóta þess að spila. Ef maður er ekki góður þá nýtur maður sín yfirleitt ekki. Við erum komnir hingað til að gera eitthvað og við viljum meira. Við höfum undirbúið okkur þannig fyrir leikinn. Við vitum það allir að við þurfum algjörlega topp frammistöðu en ef einhverjir trúa því, þá eru það við." Gert er ráð fyrir rúmlega 11.000 dönskum áhorfendum í Boxen í kvöld og pressan er á Dönum sem hafa ekki orðið Evrópumeistarar frá árinu 2012. Er þetta föstudagskvöld ekki bara frábært til að eyðileggja partýið hjá Dönum á heimavelli, spurði Edda Sif, Snorra Stein. ,,Ef þú spyrð mig, þá er þetta frábært moment í það. Við erum komnir þangað til þess en við erum á sama tíma auðmjúkir gagnvart þessu. Ég held að það sé alveg á hreinu að við munum selja okkur dýrt."

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.