Ingvar Heiðmann mætir aftur á völlinn. Heimasíða KA
KA tilkynnti nú rétt í þessu að Ingvar Heiðmann Birgisson hafi ákveðið að taka fram handboltaskónna og skrifað undir samning við KA. Ingvar mun því leika með liði KA í Olís-deildinni á komandi tímabili en Ingvar lék síðast með liði ÍR tímabilið 2015/2016 í efstu deild. Ingvar sem er þrítugur er uppalinn í KA en hann lék sína fyrstu meistaraflokks leiki með sameiginlegu liði Akureyrar áður en hann gekk í raðir ÍR um tvítugt. ,,Ingvar sem er þrítugur að aldri er öflugur varnarmaður sem leikur sem línumaður. Hann vakti verðskuldaða athygli með ÍR liðinu þar sem var einn af burðarásunum í sterkum varnarleik liðsins en hann missti vart úr leik með ÍR árin sem hann hélt til í Breiðholtinu. Ingvar sem er hörku íþróttamaður tók sér svo pásu frá handboltanum og gerði það meðal annars gott í crossfit heiminum en hann var einnig öflugur í frjálsum íþróttum á sínum yngri árum," segir í tilkynningu KA. ,,Það er ákaflega jákvætt að sjá Ingvar mættan aftur á handboltavöllinn og að sjá hann aftur í gulu og bláu treyjunni. Það er klárt að koma hans mun styrkja hópinn okkar en Ingvar veit nákvæmlega fyrir hvað félagið stendur og afar gaman að sjá hve öflugur KA kjarni myndar liðið okkar á komandi leiktíð," segir ennfremur í tilkynningunni frá KA. Ingvar lék alla 22 leiki ÍR í Olís-deildinni tímabilið 2015/2016 er liðið féll úr efstu deild. Það tímabil skoraði Ingvar 26 mörk fyrir ÍR. Það verður fróðlegt að sjá Ingvar aftur á handboltavellinum á komandi tímabili en Ingvar er annar leikmaðurinn sem gengur í raðir KA á stundum tíma sem hefur getið sér gott orð í Crossfit-heiminum því línumaðurinn Daníel Matthíasson gekk í raðir KA frá FH á dögunum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.