Birkir Snær í leik með Haukum ((Kristinn Steinn Traustason)
Birkir Snær Steinsson, hægri skytta Hauka og íslenska U21 ára landsliðsins hefur verið undir smásjá norska úrvalsdeildarfélagsins, Arendal og samkvæmt heimildum Handkastsins bauð Arendal í Birki sem er samningsbundinn Haukum til sumarsins 2027. Birkir er nýbúinn að framlengja samning sinn við Hauka. Haukar eru þó ekki á þeim buxunum að leyfa Birki að fara. Arendal endaði í 7.sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og fóru alla leið í undanúrslit þar sem liðið þurfti að sætta sig við 2-0 tap í einvígi sínu gegn deildarmeisturum Elverum. Ein af örvhentu skyttum Hauka á síðasta tímabili, Geir Guðmundsson hefur lagt skónna á hilluna og eftir eru því Birkir Snær Steinsson og Ólafur Ægir Ólafsson. Það yrði því mikil blóðtaka fyrir nýráðinn þjálfara Hauka, Gunnar Magnússon ef hann myndi missa Birki til Noregs. Birkir Snær skoraði 79 mörk í 24 leikjum með Haukum í deild og úrslitakeppni á síðustu leiktíð en Haukar enduðu tímabilið í 5.sæti Olís-deildarinnar og töpuðu gegn Íslands- og bikarmeisturum Fram í 8-liða úrslitum 2-0.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.