Jón Ómar Gíslason ((Egill Bjarni Friðjónsson)
Tveir leikmenn Hauka í Olís-deild karla fóru í aðgerð á hné í sumar. Þetta staðfesti Gunnar Magnússon nýráðinn þjálfari Hauka við Handkastið. Um er að ræða markvörðinn, Vilius Rasimas og línumanninn Jón Ómar Gíslason sem gekk í raðir Hauka frá Gróttu í sumar. Um var að ræða liðþófaaðgerð. Að sögn Gunnars er stefnan sett á að báðir geti þeir byrjað að æfa aftur með Haukum er liðið hittist aftur til æfinga eftir sumarfrí seinni partinn í júlí. Vilius Rasimas gekk í raðir Hauka frá Selfossi fyrir síðustu leiktíð en var orðinn varamarkvörður hjá Haukum seinni part tímabils. Þá var Vilius í skugganum á Aroni Rafni Eðvarðssyni sem nú hefur lagt skóna á hilluna. Til Hauka er kominn, Magnús Gunnar Karlsson en hann lék með Gróttu á láni frá Haukum á síðustu leiktíð. Gera má ráð fyrir því að Vilius og Magnús Gunnar myndi markvarðarpar Hauka í Olís-deildinni en auk þess eru Haukar með ungan og efnilega, Ara Dignus í leikmannahópi sínum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.