Jón Þórarinn Þorsteinsson - Atli Kristinsson (Eyjólfur Garðarsson)
Báðir nýliðarnir í Olís-deild karla, Þór og Selfoss eru í leit að markverði samkvæmt heimildum Handkastsins. Bæði lið hafa misst sína aðalmarkverði frá síðasta tímabili. Jón Þórarinn Þorsteinsson markvörður Selfoss síðustu tímabil gekk í raðir deildarmeistara FH í sumar og Selfyssingar hafa ekki bætt við sig markverði í hans stað. Markvörður Þórs á síðasta tímabili, Kristján Páll Steinsson er fluttur erlendis eins og við greindum frá í gær. Í sumar fengu Þórsarar ungan og efnilegan markvörð frá HK, Patrekur Guðni Þorbergsson en þeir eru í leit að markverði sem myndi mynda markvarðarpar með Patreki sem er með litla reynslu úr Olís-deildinni. Samkvæmt heimildum Handkastsins hafa bæði lið leitað af markverði í töluverðan tíma. Þórsarar hafa einbeitt sér að erlendum markmönnum á meðan Selfyssingar hafa verið að þreifa fyrir sér innanlands. Nú virðist hinsvegar leitin vera komin út fyrir landsteinana og því má búast við því að bæði lið sæki sér erlenda markverði áður en tímabilið hefst í byrjun september.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.