Marta Wawrzynkowska (
Pólski markvörðurinn, Marta Wawrzynkowska hefur yfirgefið ÍBV og mun ekki leika með liðinu á tímabilinu. Marta hefur verið einn albesti markvörður Olís-deildarinnar síðustu ár. Þetta staðfesti Hilmar Ágúst Björnsson aðstoðarþjálfari ÍBV í samtali við Handkastið. Marta Wawrzynkowska varð fyrir því óláni seint á síðasta ári að slíta krossband í hné. Meiðslin komu í ljós þegar hún var liðþófaðaðgerð á hné í desember. Marta lék einungis 14 leiki með ÍBV á síðustu leiktíð en var með næst hæstu prósentu markvörsluna í deildinni á eftir Hafdísi Renötudóttir markverði Vals. Marta var með rúmlega 35% markvörslu í leikjunum fjórtán sem hún spilaði með ÍBV á síðustu leiktíð. ÍBV hefur fyllt skarð Mörtu með norskum markverði sem kemur frá sænska félaginu, Kristianstad, Amalie Frøland. ÍBV var lengi vel í mikilli fallbaráttu í Olís-deildinni á síðustu leiktíð en með góðum endaspretti náði liðið að tryggja sér 6.sætið og þar með inn í úrslitakeppnina. Þar þurfti liðið að sætta sig við tap gegn Haukum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.